Landnám laxa ofan Tungufoss í Eystri-Rangá á grunni fiskvegagerðar og fiskiræktar

Jóhannes Sturlaugsson – Björn Theodórsson

Forathuganir 2021-2023 vísa til þess að ársvæðið ofan Tungufoss í Eystri-Rangá henti laxi þegar komið er upp fyrir lindána Teitsvötn. Þetta eru upplýsingar sem gleðja þá sem standa að því að koma upp sjálbærum laxastofni í þessari verðandi vin laxins í Eystri-Rangá. Um leið er ekki að efa að veiðiréttarhafar neðan Tungufoss samgleðjast enda fara hagsmunir þessara aðila saman. Fram undan eru spennandi verkefni sem felast í því að koma málum þannig fyrir að laxaseiði dafni í sem mestum fjölda á þessu svæði ofan Tungufoss – sem og í því að vinna samhliða að því að að ganga frá fiskvegi sem geri laxi af svæðinu fært að ganga á þetta nýja búsvæði til hrygningar þegar hann skilar sér úr hafi.

Fiskvegagerð
Í landi Keldna rétt neðan við Tungufoss opnast gil út að ánni sem hentar vel sem upphafskafli fiskvegar sem síðan myndi samkvæmt frumdrögum heimamanna að Keldum og samstarfsaðila fara upp um berghaft sem fleygað yrði niður og að endingu myndi fiskvegurinn opnast um 40m ofan Tungufoss. Með því að opna takmörkuðu magni vatns leið úr Eystri-Rangá inn á þann farveg þá verður hægt að tryggja göngur laxins á nýja heimahaga sína og um leið sjálbærni Eystri-Rangár stofnsins sem þar tekur sér bólfestu. Hér er þessum lið um fiskvegagerð lítið annað ætlað en að minna á það að sú vinna er eitt af upphafsverkefnum fiskræktarinnar. Nánari lýsing á því hvernig fyrirhugað er að ganga frá þeim málum er efni í sérstaka greinargerð og frumdrög þeirra áætlana hafa forsvarsaðilar fiskiræktraverkefnisins þegar birt, meðal annars í greinargerð til Fiskiræktarsjóðs vegna verkefnisins.

Björn Theodórsson Fiskeldisfræðingur:

Þegar fiskvegurinn verður kominn þá mun lax geta gengið með sjálfbærum hætti upp ána og nýtt svæðið til búsvæða og hrygninga. Hér er verið að horfa til langs tíma, skilgreind markmið og búið að vinna í þeim frá árinu 2021. Þetta er mikli vandaðri aðkoma en ég hef séð lengi. Það er mikill varnarsigur að finna vatnakerfi sem er með sömu lengd og þrefaldar Elliðaárnar eða Laxá í Leirársveiit að lengd.  Nú þegar hefur fyrsti árgangur af sjálfbærum laxaseiðum gengið niður ána til sjávar og von er á fyrstu löxunum til baka í sumar.  Þeir laxar vilja ólmir komast upp á sín búsvæði og er fiskvegurinn þeirra leið þangað. Þessi framkvæmd er líklega ein sú stærsta í eflingu nýrra búsvæða og stækkun íslensks laxastofnsins

Sjá nánar á youtube rás:

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *